-Bræðingur var það heillin- Fór á tónleika á Gauk…

-Bræðingur var það heillin-

Fór á tónleika á Gauknum í gær, hvar Mezzoforte var að spila. Var svo heppinn að kl. fimm í gær hringdi Þröstur vinnufélagi minn og spyr mig hvort ég hafi áhuga á að fara frítt á tónleika með Mezzoforte. Þá hafði markaðsdeild Símans fengið nokkra boðsmiða og Þröstur var svo góður að muna eftir mér og þannig fékk ég frítt á tónleikana…aðrir tónleikarnir á stuttum tíma sem ég fæ boðsmiða á. Maður er aldeilis að detta í lukkupollinn þessa dagana.

Eftir mikla yfirlegu þá reiknast mér til að þetta hafi verið fyrstu Mezzo tónleikarnir sem ég fer á. Þeir spila nú reyndar ekki oft opinberlega en þrátt fyrir það finnst mér þetta með miklum ólíkindum.

Tónleikarnir í gær voru hins vegar algjör snilld. Fyrir hlé keyrðu þeir í gegnum mörg ný lög sem sánda bara ótrúlega vel, sum þessara laga jafnvel með því besta sem þeir hafa gert. Eftir hlé tóku þeir aðallega gamla klassíkera og þar fór maður að nafni Gunnlaugur Briem á kostum. Langt síðan ég hef heyrt Gulla spila en hann er alveg óþolandi góður. Ég myndi gefa á mér hægri höndina fyrir það að geta spilað eins og hann.

Þessir tónleikar voru það góðir að ég er mikið að spá í að fara aftur í kvöld. Skoðum það mál allavega.

Góðar stundir.

Færðu inn athugasemd