-Alþjóðlegur frídagur-

júní 1, 2007

Af hverju í ósköpunum er 1. júní ekki almennur frídagur?

Á þessum degi fyrir 99 árum fékk Hafnarfjörður kaupstaðarréttindi og fyrir 40 árum síðan kom út einhver frægasta og besta hljómskífa allra tíma út, sjálft meistaraverkið Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band.

Ég legg það til að við leggjum af einhvern af þessum óþarfa kirkjufrídögum eins og uppstigningardag, annan í hvítasunnu eða einhvern annan „annar í einhverju“-dag, og tökum upp Afmælisdaginn 1. júní. Þá verði bannað að hlusta á allt nema Bítlana, eða tónlist tengda þeim og fólki verði gert skylt að fara til Hafnarfjarðar og verja þar í það minnsta broti úr degi og dást að fegurð bæjarins. Legg til að einhver góður þingmaður ræði þetta á sumarþinginu.

Góðar stundir….og til hamingju með daginn!

-Nei, þið eruð að grínast!-

maí 2, 2007

Það er ótrúlegt hvað fólk getur endalaust reynt að troða allskonar bulli og vitleysu inn á annað fólk…og það sem er kannski enn verra er að það er til fullt af fólki sem trúir svona bulli.

Þetta er bara fáránlegt. 

Þau segjast lækna allar tegundir krabbameins á öllum stigum sjúkdómsins og luma auk þess á lækningu á alnæmi á ýmsum stigum sjúkdómsins. Svo þegar þau birta vitnisburði frá fólki sem þau hafa „læknað“ þá er það fólk sem var með verki í kálfanum, mjöðminni eða þjáðist af úthaldsleysi. Já, ég er alveg að kaupa þetta.

…en ég er náttúrulega svo mikill efasemdarmaður.

Góðar stundir.

-Tólf ára kvikindi-

apríl 27, 2007

Þetta myndband er magnað helvíti. Drengurinn er tólf ára gamall og hann spilar milljón sinnum betur en mig getur nokkurn tímann dreymt um. En auðvitað viðurkenni ég það ekki, heldur bendi á þann hræðilega sjúkdóm sem herjað hefur á mig og fjallað var rækilega um í síðasta pistli.

En gjörið svo vel, Tony Royster jr.


P.s. eftir ca. 5:35 lagðist ég hreinlega í gólfið og grét eins og smábarn…tólf ára barn á ekki að geta gert svona.

Góðar stundir.

Viðbót: Ég sé að spilarinn hérna telur niður, og þegar ég talaði um 5:35 þá er það þegar eru ca. 2:15 eftir…magnað helvíti.

-Ég og ganglionið mitt-

apríl 25, 2007

Glöggir lesendur muna vafalítið eftir úlnliðshremmingum mínum. Sjá hér.

Og sjá mynd 1.1.
ganglion.jpg
Mynd 1.1. (Myndin er sviðsett, þetta er ekki ganglionið mitt)

Fyrir áhugasama er „gaman“ að segja frá því að í desember síðastliðnum skaut þessi kúla aftur upp kollinum, og ég er ekki frá því að hún sé tvöfalt stærri í þetta skiptið…og hún sýnir lítið sem ekkert fararsnið á sér. Þess vegna ligg ég undir feldi þessa dagana og melti það með mér hvort ég eigi að fara í fjórða uppskurðinn, eða hvort ég eigi að láta gott heita og leggja trommukjuðana bara að mestu upp í hillu. Síðari kosturinn er svo sem alveg freistandi, enda mjög fínt að geta sagt að síðasta giggið manns hafi verið á Cavern Club.

En hver svo sem niðurstaðan verður, þá er víst að mínir dyggu lesendur fá án nokkurs vafa að lesa allt um það hér á komandi vikum eða mánuðum.

Góðar stundir.

-Helsti varðmaður íslenskrar tungu látinn-

apríl 24, 2007

Í dag bárust þær sorgarfréttir að Pétur Pétursson útvarpsþulur hefði látist, 88 ára að aldri. Ég er líklegast helst til ungur til að muna vel eftir Pétri sem útvarpsmanni, en ég minnist þeim mun frekar hins mikla íslenskumanns sem Pétur var. Fáir, ef nokkrir, höfðu eins góð tök á móðurmálinu og feðratungunni og Pétur. Hann var hreintungumaður af gamla skólanum, og honum sveið að sjá öll þau erlendu áhrif sem smitað hafa íslenskt tungumál síðustu ár og áratugi.

Við bræðurnir höfðum sérstaklega gaman af Pétri, og lásum greinar hans og pistla undanfarin ár af mikilli áfergju.

Ég hef haft það fyrir sið síðan ég byrjaði á þessu bloggi fyrir nokkrum árum síðan að kveðja með orðunum „Góðar stundir“, og er það einmitt fengið beint frá Pétri, sem vildi að í stað þess að segja „bless“ eða hið amríska „bæ“, þá segði maður „Góðar stundir“.

Með þeim orðum kveð ég hinn mæta mann Pétur Pétursson.

Góðar stundir.

-Verður maður ekki að halda í hefðina?-

apríl 19, 2007

Lítinn hlaut ég yndis arð

af akri mennta og lista.

En sáðfall mér í svefni varð

á sumardaginn fyrsta.

Gleðilegt sumar

Góðar stundir.

-Upprisan mikla-

apríl 9, 2007

Eftirfarandi pistill átti upphaflega að birtast á gamla blogginu mínu á páskadag þ. 8. apríl 2007, en sökum samstarfserfiðleika við blogger.com var ákveðið að flytja allt heila klabbið hingað yfir. Veit svo sem ekkert hvort þetta er eitthvað betra, en við látum allavega reyna á það.

-Upprisan mikla-

Einhverjir voru farnir að kalla eftir því að hér yrði framið blogg, enda langt um liðið síðan eitthvað var skrifað hérna síðast, og fanbeisið væntanlega búið að finna sér eitthvað þarfara að gera en að vappa hingað í von og óvon um að eitthvað hafi breyst á síðunni. Ég hefi sem sagt ákveðið að verða við þessum þrálátu óskum um blogg, og hvaða dagur er betri fyrir upprisu bloggsins en sjálfur páskadagurinn, en samkvæmt gamalli trú á heimsendaspámaðurinn og költleiðtoginn Jesús frá Nasaret að hafa stigið upp frá dauðum á þessum degi. Ekki amalegt það.

En allavega…þá fórum við félagarnir í mikla og góða ferð til Englands á dögunum og má eiginlega segja að maður sé rétt nýbúinn að ná sér eftir þá ferð, en ég ætla í fáeinum orðum að reyna að rekja ferðasöguna.
Lagt var af stað frá Leifsstöð snemma dags og flogið með British Airways til London. Kom það okkur þægilega á óvart að allt áfengi var frítt um borð í flugvélinni og nýttu menn sér það óspart. Frá London flugum við yfir til Manchester, aftur með BA og aftur var allt áfengi frítt og var það ekki síður kærkomin búbót, enda voru menn orðnir ágætlega léttir þegar við komum á áfangastað í Liverpool. Eftir staðgóðan kvöldverð var haldið í Mekka Bítlamenningarinnar í Liverpool, á sjálfan Cavern Club, hvar stórfínt Bítlacoverband var að spila, The Mersey Beatles. Félagar mínir fengu þá hugmynd að grípa drengina í hléi og spyrja hvort ungi trymbillinn frá Íslandi fengi ekki að troða upp og spila með þeim eitt lag, þar sem hann kynni nú öll Bítlalögin. Mersey-drengirnir tóku glimrandi vel í þessa hugmynd og nokkrum andartökum síðar var ég kynntur á svið og á sama stað og Ringo (og Pete Best) sátu fyrir rúmum fjörutíu árum síðan taldi ég í Back in the USSR, og sælutilfinningin sem hríslaðist um Bítlanördinn var engu lík. Núna get ég glaður lagt kjuðana á hilluna, enda fátt sem getur toppað þetta. Þessu til sönnunar sjáum við mynd:

Cavern
Mynd 1.1. Sverrir á Cavern.

Daginn eftir var svo komið að aðalatriði ferðarinnar, en það voru að sjálfsögðu tónleikarnir með Dave Matthews. Eftir ríflega þriggja tíma lestarferð komumst við loks á áfangastað, sem var Newcastleborg. Þar sem við vorum komnir á staðinn ca. tveimur tímum fyrir tónleikana ákváðum við að fara á eitthvurn veitingastað og fá okkur að snæða. Meðan við biðum eftir borðinu okkar tylltum við okkur við bar á veitingastaðnum, og þar sem við erum að sötra öl er mér litið inn í veitingasalinn og sé þar andlit sem ég kannast svona rosalega vel við. Og viti menn, þá var þetta enginn annar en sjálfur Dave Matthews, og ég og Jói þustum til hans eins og litlar skólastelpur og tókum í höndina á honum og áttum stutt spjall við hann. Þessu til sönnunar sjáum við aðra mynd:

Dave
Mynd 1.2. Dave Matthews og Jóhann Snorri

Einum og hálfum tíma síðar sátum við í Newcastle City Hall og hlustuðum á þennan viðkunnalega mann ásamt hinum frábæra gítarleikara Tim Reynolds. Spiluðu þeir í rúma tvo tíma, og voru þetta algjörir snilldartónleikar. Þessu til sönnunar sjáum við enn eina mynd:

Dave og Tim
Mynd 1.3. Dave og Tim í Newcastle City Hall

Á laugardeginum fórum við svo á Anfield og sáum besta lið í heimi vinna auðveldan 4-0 sigur þar sem sjálfur Robbie Fowler skoraði tvö mörk. Þannig má með sanni segja að þessi ferð hafi verið hver hápunkturinn eftir annan, og sennilegast allra skemmtilegasta utanlandsferð sem ég hef farið í.

Lifi bloggið!

Góðar stundir.

-Vorboðinn ljúfi-

febrúar 21, 2007

-Vorboðinn ljúfi-
Það er alltaf skýrt merki um að vorið sé á næsta leiti þegar Knattspyrnufélagið Kóngarnir hefur undirbúningstímabil sitt.
Í gærkvöldi var sem sagt fyrsti æfingaleikurinn á tímabilinu, og það er óhætt að segja að það þarf mikið að gerast til að maður komist í sæmilegt form.
Þó náði ég að spila vel rúmlega hálfan leikinn sem ég tel býsna gott, og spilaði auk þess þrjár stöður, hægri bakvörð, miðvörð og framherja…ekki amalegt afrek það…ekki það að ég hafi gert mikið af viti í leiknum samt.
En leikurinn tapaðist sem sagt 2-3, eftir að Kóngarnir höfðu haft frumkvæðið lengi framan af leik, en skortur á úthaldsleysisvöntun varð okkur að falli í lokin.

Svo á morgun gerist það sem allir hafa beðið eftir síðustu mánuði. Ég, Jói, Ingvar og G. Hörður förum í heimsreisu til Englands og förum á stórtónleika með Dave Matthews á föstudaginn, og svo á Liverpool leik á laugardaginn. Þetta verður án nokkurs vafa hin mesta snilldarferð, og verðum við vafalaust landi og þjóð, og þá sérstaklega Hafnarfirði til sóma.
En ég hringi síðar.

Góðar stundir.

-It was the best of times, it was the worst of tim…

janúar 22, 2007

-It was the best of times, it was the worst of times-
Einhver breskur sálfræðingur hefur „reiknað“ það út að dagurinn í dag sé versti dagur ársins.
„Í útreikningum sínum tekur hann það m.a. með í reikninginn að á þessum árstíma hafi fólk hvað mestar fjárhagsáhyggjur vegna umframeyðslu í kring um jólin. Þá segir hann fólk þjást af sektarkennd vegna nýársheita sem þegar séu farin í vaskinn, auk þess sem vinnuþreyta, myrkur og erfitt veðurfar dragi fólk niður.“[1]
Strax í kjölfarið á versta deginum kemur svo besti dagur ársins, en á morgun er einmitt 23. janúar, en á þeim degi hófst hið sögufræga eldgos í Vestmannaeyjum…og samkvæmt kirkjubókum Hafnarfjarðar þá ku þetta vera fæðingardagur undirritaðs. Blóm og kransar eru afþakkaðir.
Þrátt fyrir að árin færist yfir þá er ég góður til heilsunnar og allur hinn sprækasti, en verð að heiman á afmælisdaginn.

Góðar stundir.

Heimildir: [1] mbl.is: 19. janúar 2007.

-Handboltafár!- Eins og flestir ættu að vita geisa…

janúar 22, 2007

-Handboltafár!-
Eins og flestir ættu að vita geisar handboltafár um gjörvalla heimsbyggðina. Fólk hvaðanæva að sameinast í ást sinni á hinni fögru íþrótt þar sem hrindingar og fantabrögð eru í hávegum höfð.
Líkt og undanfarin ár þá hefur hin stórgóða handboltasíða handbolti.blogspot.com verið endurvakin, hvar hinn skeleggi fréttaritari Jón Andri Finnson skrifar greinargóða pistla og lýsir því sem fyrir augu ber á mótinu. Mæli ég eindregið með þessari lesningu.

Góðar handboltastundir.