Archive for apríl, 2006

-Sumarhefðin- Það hefur skapast hefð fyrir því að …

apríl 20, 2006

-Sumarhefðin-
Það hefur skapast hefð fyrir því að birta hér lítið ljóð á þessum degi…og í ár verður ekkert brugðið út af vananum.

Lítinn hlaut ég yndis arð
af akri mennta og lista.
En sáðfall mér í svefni varð
á sumardaginn fyrsta.

Gleðilegt sumar!

Góðar stundir.

-Hvað er "nýtt" í nýju þolmyndinni?- Þá er loksins…

apríl 10, 2006

-Hvað er „nýtt“ í nýju þolmyndinni?-
Þá er loksins komið að því sem sárafáir hafa beðið spenntir eftir. Úttekt mín á nýju þolmyndinni byggð á verkefni sem ég skilaði í íslenskum mállýskum í HÍ.

Ýmsir fræðimenn sem rannsakað hafa nýju þolmyndina vilja meina að í raun og veru sé um að ræða einhvers konar ópersónulega germynd (þetta eru þó ekki allir sammála um). Svo virðist sem gömlu þolmyndinni sé slengt saman við hefðbundna germynd þannig að út kemur hin nýja þolmynd. Það sem er „nýtt“ í nýju þolmyndinni er að í staðinn fyrir ákveðinn geranda kemur hið ópersónulega það og verður að einhvers konar geranda í setningunni.

En hvers konar setningar gætu verið fyrirmyndir nýju þolmyndarinnar?

Það var farið víða í ferðalaginu. Það var dansað kringum tréð. Það var litlum strák hrint á leiðinni í skólann. Það var hrint litlum strák á leiðinni í skólann.

Allar þessar setningar hér að ofan gætu verið fyrirmyndir nýju þolmyndarinnar. Barni, sem hefur búið sér til málfræði sem leyfir nýju þolmyndina, gæti þótt svo eðlilegt að beita leppnum það að það fer að nota hann líka þegar það býr til hefðbundna þolmyndarsetningu. Munurinn verður bara sá að leppurinn það verður að nokkurs konar geranda í setningunni og hið eiginlega viðfangsefni setningarinnar (t.d. litli strákurinn sem var hrint) verður ákveðið.

Það var hrint stráknum á leiðinni í skólann.

Vona að lesendur séu einhvers vísari um nýju þolmyndina.

Góðar stundir.

-Is there a chicken in here?- Það var einkar gaman…

apríl 10, 2006

-Is there a chicken in here?-
Það var einkar gaman að því að sjá hinn unga og skelegga fréttamann Guðmund Hörð Guðmundsson aftur á skjánum í gær. Guðmundur bar okkur fréttir af fuglaflensunni í Skotlandi, hvar hann ræddi við heimamenn um þessa miklu vá sem steðjar að mannkyninu, og kom það þeim sem til þekkja nokkuð skemmtilega á óvart hversu góðum tökum Guðmundur hefur náð á engilsaxneskunni.
Greinilegt að Guðmundur hefur bætt sig heldur betur í enskunni frá því hérna um árið þegar hann spurði eftirfarandi spurningar á veitingahúsi í Groningen:

„Excuse me, is there a chicken in here?“

Góðar stundir.

-Tímamót- Ég hef ákveðið að taka upp á þeim leiðin…

apríl 7, 2006

-Tímamót-
Ég hef ákveðið að taka upp á þeim leiðinlega ósið að blogga svona eins og einu sinni. Vona að fólk virði það við mig, en það er tilefni til.

Það var einmitt á þessum degi fyrir 15 árum síðan að ungur drengur gekk upp að altarinu í Víðistaðakirkju og staðfesti skírn sína og þar með viljann til að ganga með manni að nafni Gvuð í gegnum lífið upp frá því. Eitthvað hefur sá vilji dvínað með árunum og hefur eiginlega verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár.
Eins og ég hef áður reifað (er það ekki örugglega reifað?) þá er einna eftirminnilegast frá þessum degi þátturinn á Stöð tvö um Jimi Hendrix, sem ég þó missti af meirihlutanum af, og að sjálfsögðu gnótt góðra gjafa.

…annars bara til hamingju ég!

Og þolmyndargreiningin kemur von bráðar, fyrir þá sem eru sérlega áhugasamir um það málefni.

Góðar stundir.