Archive for apríl, 2004

-"Ég svaraði öllum spurningunum!"- Þetta sagði Ge…

apríl 29, 2004

-„Ég svaraði öllum spurningunum!“-

Þetta sagði George Bush þegar hann spjallaði við fréttamenn í dag eftir „yfirheyrslu“ einhvurrar amrískrar rannsóknarnefndar. Duglegur strákur.

Sjálfur svaraði ég öllum spurningunum í fyrsta prófinu mínu sem fram fór í gær. Var þar á ferðinni próf í heimspekilegum forspjallsvísindum og er það von mín og trú að ég hafi rúllað því upp…ég allavega svaraði öllum spurningunum.

Góðar stundir.

-Poppgetraun- Þar sem lítið er um blogg þessa dag…

apríl 26, 2004

-Poppgetraun-

Þar sem lítið er um blogg þessa dagana af ýmsum ástæðum þá ætla ég bara að birta textabrot úr lagi sem hefur verið í hausnum á mér undanfarna daga. Sá/sú heppni/heppna sem veit hvað þetta er fær að launum einn bjór á Hansen….að öllum líkindum.

When the sun beats down and I lie on the bench,

I can always hear them talk.

Me, I´m just a lawnmower, you can tell me by the way I walk.

Góðar stundir.

-Gleðilegt sumar- Eftirfarandi stöku birti ég lík…

apríl 22, 2004

-Gleðilegt sumar-

Eftirfarandi stöku birti ég líka hérna fyrir ári síðan, finnst hún bara eiga svo vel við að ég ákvað að birta hana bara aftur:

Lítinn hlaut ég yndis arð

af akri mennta og lista.

En sáðfall mér í svefni varð

á sumardaginn fyrsta.

Góðar stundir.

-Búnir að fá nóg- Þessir hryðjuverkamenn sem voru…

apríl 22, 2004

-Búnir að fá nóg-

Þessir hryðjuverkamenn sem voru handteknir í tengslum við leik Man Utd. og Liverpool á laugardaginn, voru þetta ekki bara frústreraðir Liverpool aðdáendur sem voru komnir með uppí kok af spilamennsku liðsins?

Bara svona pæling….ég veit að ég er allavega orðinn mjög pirraður á spilamennsku liðsins.

Góðar stundir.

-Woe is me- Ég fór í gærkvöldi út á Keflavíkurflu…

apríl 20, 2004

-Woe is me-

Ég fór í gærkvöldi út á Keflavíkurflugvöll og sótti bróður minn sem var að koma heim frá Lundúnum. Þetta var sem sagt í sjötta skiptið á innan við mánuði sem ég þarf að keyra þessa leið, woe is me.

En í þetta skiptið fékk ég nú svolítið fyrir minn snúð. Bróðir minn kom nefnilega færandi hendi með dvd diska handa litla bróður sínum (sem er ég). Þessir diskar innihalda annars vegar safn af því besta frá Flying Circus þáttum þeirra Monty Python manna sem eru einhverjir fyndnustu þættir sem gerðir hafa verið frá upphafi siðmenningar, plús sýning sem þeir héldu í Aspen fyrir nokkrum árum síðan…svona smá kombakk sýning, mjög gott allt saman.

Hins vegar er svo um að ræða disk sem rekur fyrstu Ameríkuferð drengjanna í hljómsveitinni The Beatles sem ætti nú að vera Íslendingum að góðu kunn en hljómsveitin var einkar vinsæl á sjöunda áratugnum fyrir lög eins og Words of love, What you´re doing og Not a second time. Sannarlega mikill happafengur þar á ferðinni.

Það sem er hins vegar grábölvað við að fá svona fallegan pakka núna er að þetta gefur manni svo helv…góða afsökun fyrir því að taka sér góða pásu frá lærdómnum, og varla má maður við því. Woe is me.

Fleira var það vart í bili.

Góðar stundir.

-Hver man ekki eftir…- …þessum manni? …

apríl 17, 2004

-Hver man ekki eftir…-

…þessum manni?

Þetta er auðvitað enginn annar en leynilögreglumaðurinn góðkunni Nik Knatterton. Ég fékk allt í einu mikla löngun til að sjá einhvern af þeim mögnuðu þáttum sem gerðir voru um þennan snilling, og þá á íslensku. Ef ég man rétt þá var það Hallur Helgason sem talaði inná þessa þætti og gerði það af stakri snilld. Hver man t.d. ekki eftir tvöfalda kjaftshögginu….bara til öryggis. Menn gera bara ekki svona teiknimyndir í dag…menn gera að vísu öðruvísi teiknimyndir og eflaust fyndnari og betri….en samt einhver nostalgía við þetta.

Annars er það af sjálfum mér að frétta að síðustu daga hef ég reynt að dunda mér við að klára ritgerð og lesa undir próf, nema hvað að síðustu tveir dagar hafa að mestu farið í að laga tölvuna mína. Það hefur komist einhver leiðindapúki í hana og það endaði með því að það þurfti að formata tölvuna og þeir sem gengið hafa í gegnum slíkt vita hvað það getur nú verið hressandi verkefni.

…fleira var það varla í bili, nema eins og maðurinn sagði:

„Þú varst sjálfur í eina tíð prakkaritvél hefur takka, hverjum sem það er að þakka.“

Tja máske að hér sé komin poppgetraun…en þessi er nú af allra léttasta tagi.

Góðar stundir.

-…og að ógleymdum Jack Pot- Þá eru páskarnir li…

apríl 13, 2004

-…og að ógleymdum Jack Pot-

Þá eru páskarnir liðnir og framundan er tæpur mánuður af próflestri og öllu sem því fylgir…gaman gaman.

Það var ekkert svakalega mikið djammað um páskana. Fór á miðvikudaginn í bæinn með Davíð og Stefáni…which was nice. Fór svo aftur á djammið á laugardaginn með fleiri ungum drengjum sem endaði á því að Jói er allsvakalega krambúleraður í andlitinu eftir hinn stórskemmtilega hlaupa-á-hvorn-annan leik sem hann og Stefán fundu upp. Mæli eiginlega ekki með þeim leik, nema menn standi frekar fast á eigin fótum allajafna.

Bróðir minn flaug í morgun utan til Lundúna ásamt drengjunum úr knattspyrnuliði Hauka. Að sjálfsögðu fékk litli bróðir það hlutverk að skutla þeim stóra út á völl. Þurfti að vakna klukkan hálf fimm í nótt til þess að keyra suður í Keflavík…í fjórða skiptið á stuttum tíma. Ég hata að keyra þessa leið…sérstaklega ef ég er ekki að fara út. Mæli með því að flugvöllurinn verði fluttur nær Hafnarfirði.

Ég fór á ódýra tónlistarmarkaðinn í Perlunni á laugardaginn og labbaði út þremur diskum ríkari. Keypti mér DVD disk með Secret world tónleikum Peter Gabriel. Ég á þessa tónleika á vídeóspólu en alltaf skemmtilegra að eiga hlutina á dvd. Svo keypti ég mér disk með hljómsveitinni Alfie sem er í svolitlu uppáhaldi hjá mér þessa dagana, og að lokum keypti ég þýskan disk sem heitir Schlager history. Þetta er í einhverri röð og þessi er númer sex í röðinni ef ég man rétt. Þarna á til að mynda Siw Malmquist eitt lag sem og Die Flippers, Peter Beil og fleiri og fleiri. Auk þess má finna þarna ágæta útgáfu af laginu Ein bisschen frieden sem sigraði í júróvisjón keppninni árið 1982 ef ég man rétt.

Góðar stundir

-Hákon Víníent og Tom Bola- Ég varð voðalega glað…

apríl 7, 2004

-Hákon Víníent og Tom Bola-

Ég varð voðalega glaður þegar ég uppgötvaði það í dag að til stendur að halda auka tónleika með hljómsveitinni Pixies. Það þýðir að ég mun væntanlega verða þess heiðurs aðnjótandi að fá að sjá þau spila. Svo reynir maður að sjálfsögðu að verða sér úti um miða á Metallica og þá held ég að þetta sumar verði alveg ágætis tónleikasumar. Korn, Pixies og Metallica er ekki slæmur pakki.

Sá ótrúlegi atburður gerðist í kvöld að ég vann veðmál við Jóa og Stefán um úrslit í leik Arsenal og Chelsea. Ég giskaði á 1-2 sigur gestanna og öllum að óvörum urðu það úrslitin. Ég og Stefán höfum haft þetta fyrir vana yfir meistaradeildinni að veðja upp á bjór og þeir eru ófáir bjórarnir sem ég hef þurft að borga honum. Þar að auki vann ég hann í pool þannig að þetta varð mjög sérstakt kvöld í alla staði.

Fleira var það ekki í bili.

Góðar stundir.

-Sjálfsmorð Kúbeins- Mér skilst að í dag séu nákv…

apríl 5, 2004

-Sjálfsmorð Kúbeins-

Mér skilst að í dag séu nákvæmlega tíu ár síðan Kurt Cobain tók sitt eigið líf, sorglegur atburður. Hann er jafnvel ennþá sorglegri í ljósi þess að þetta varð þess valdandi að hin hæfileikalitla Courtney Love hefur fengið að vaða uppi með sína tónlist og almennan vandræðagang, auk þess sem Cobain hefur orðið með ofmetnari tónlistarmönnum allra tíma eftir að hann ákvað að skjóta sig í hausinn. Mér finnst reyndar margt af því sem drengirnir í Nirvana gerðu mjög gott, en ég er samt á þeirri skoðun að megnið af þeirra tónlist er ekkert sérlega merkileg, mörg rokkbönd frá sama tímabili voru að gera miklu betri tónlist….að mínu mati.

Hins vegar var Cobain mikill aðdáandi REM og góður vinur Michael Stipe og það hlýtur að teljast góður kostur. Auk þess átti Cobain þann draum heitastan að gera plötu í anda Automatic for the people, en eins og flestir vita er það ein allra besta plata tíunda áratugarins…í það minnsta.

Fór á stórmyndina The Passion of the Christ í gær ásamt bróður mínum og Ívari félaga hans. Eins og bróðir minn benti réttilega á þá var hópurinn sem fór á myndina um margt undarlegur. Einn félagi í ásatrúarfélaginu, einn tilvonandi kaþólikki og einn helber trúleysingi.

Myndin sem slík er bara nokkuð flott, en hún hafði á engan hátt afgerandi áhrif á mitt líf. Ég fékk enga sérstaka löngun til að fara að játa einhverjar alvarlegar syndir (ekki það að ég viti til þess að ég eigi eitthvað slíkt í pokahorninu) og þaðan af síður tók ég upp á þeim leiðinlega ósið að látast í miðri filmsýningu. Ég hef reyndar verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort þetta sé eina myndin þar sem fólk hefur látist í miðri sýningu. Ég einhvern veginn leyfi mér að efast um að þetta sé í fyrsta skipti sem einhver lætur lífið í bíó. Það hefur eflaust einhver andast á Pretty woman eða Sleepless in Seattle án þess að maður hafi sérstaklega fengið fregnir af því.

Það sem fór kannski hvað mest í taugarnar á mér var þegar við vorum að labba útúr salnum, þá stóðu þar einhverjir skósveinar Gunnars í Krossinum eða einhverra slíkra samtaka og dreifðu bæklingum…hvaða rugl er það? Ég sagði nú bara kurteislega nei takk þegar mér var réttur einhver bæklingur.

Ég vil reyndar nota tækifærið og biðja Sævar Helga afsökunar á því að hafa gleymt að bjóða honum með okkur í bíó. Vona að hann geti með tíð og tíma fyrirgefið okkur þessa yfirsjón.

Í gær tóku svo Kóngarnir æfingaleik við Strumpana í logni og kulda í Hafnarfirði. Lokatölur urðu 6-3 okkur Kóngum í vil. Sjálfur náði ég einungis að spila ca. 15 mínútur af leiknum, sökum leiðinlegs bakverks sem plagar mig þegar ég hleyp. Það hlýtur að lagast.

Svo styttist í páskana, en það gerðist einmitt á páskadag að Jesús sigraði dauðann og reis upp eftir að hafa verið hýddur og loks krossfestur á föstudaginn langa eins og frægt er orðið. Svo leyfir maður sér að væla eftir erfiða helgi.

Góðar stundir.

-Bræðingur var það heillin- Fór á tónleika á Gauk…

apríl 1, 2004

-Bræðingur var það heillin-

Fór á tónleika á Gauknum í gær, hvar Mezzoforte var að spila. Var svo heppinn að kl. fimm í gær hringdi Þröstur vinnufélagi minn og spyr mig hvort ég hafi áhuga á að fara frítt á tónleika með Mezzoforte. Þá hafði markaðsdeild Símans fengið nokkra boðsmiða og Þröstur var svo góður að muna eftir mér og þannig fékk ég frítt á tónleikana…aðrir tónleikarnir á stuttum tíma sem ég fæ boðsmiða á. Maður er aldeilis að detta í lukkupollinn þessa dagana.

Eftir mikla yfirlegu þá reiknast mér til að þetta hafi verið fyrstu Mezzo tónleikarnir sem ég fer á. Þeir spila nú reyndar ekki oft opinberlega en þrátt fyrir það finnst mér þetta með miklum ólíkindum.

Tónleikarnir í gær voru hins vegar algjör snilld. Fyrir hlé keyrðu þeir í gegnum mörg ný lög sem sánda bara ótrúlega vel, sum þessara laga jafnvel með því besta sem þeir hafa gert. Eftir hlé tóku þeir aðallega gamla klassíkera og þar fór maður að nafni Gunnlaugur Briem á kostum. Langt síðan ég hef heyrt Gulla spila en hann er alveg óþolandi góður. Ég myndi gefa á mér hægri höndina fyrir það að geta spilað eins og hann.

Þessir tónleikar voru það góðir að ég er mikið að spá í að fara aftur í kvöld. Skoðum það mál allavega.

Góðar stundir.